Liverpool með augastað á Eto'o

Samuel Eto'o framherji Barcelona.
Samuel Eto'o framherji Barcelona. Reuters

Orðrómur er í gangi á Englandi og á Spáni að Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool hafi mikinn áhuga á að fá Samuel Eto'o framherja Barcelona til liðs við sig í sumar og sé reiðbúinn að punga út 18 milljónum punda, 3,1 milljarði króna, fyrir þessa miklu markavél.

Það yrði ekki ónýtt fyrir Liverpool að tefla Fernando Torres og Samuel Eto'o saman fremstu víglínu. Torres er þegar kominn í guða tölu hjá stuðningsmönnum Liverpool en Spánverjinn hefur farið á kostum með liðinu frá því hann gekk í raðir þess frá Atletico Madrid fyrir síðustu leiktíð.

Kamerúninn Eto'o hefur sallað inn mörkum fyrir Barcelona þau ár sem hann hefur leikið með því og hefur á þessu tímabili skorað 25 mörk í spænsku 1. deildinni í 28 leikjum. 

Eto'o, sem er 28 ára gamall, á eitt ár eftir af samningi sínum við Katalóníuliðið sem hann gekk til liðs við frá Mallorca árið 2004.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert