Ferguson: Fréttamenn of jákvæðir

Alex Ferguson segir að fréttamenn hafi hlaðið of miklu lofi …
Alex Ferguson segir að fréttamenn hafi hlaðið of miklu lofi á sitt lið. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, kvartar enn undan fréttamönnum. Að þessu sinni er það þó ekki vegna meintrar neikvæðni í garð sinna manna, heldur segir hann að þeir hafi verið of jákvæðir í garð liðsins þegar það lék 11 deildaleiki í röð án þess að fá á sig mark.

Um það leyti fóru margir fjölmiðlar að velta vöngum yfir möguleikum United á að vinna fimm bikara á keppnistímabilinu og Ferguson telur að það hafi verið einum of.

„Það hefur mikið gengið á síðan  við fórum til Japan í heimsmeistarakeppni félagsliða. Eftir það náðum við forystunni í deildinni og þurftum síðan að hlusta á alla delluna í ykkur (fjölmiðlunum) um hversu frábærir við værum," sagði Ferguson við fréttamenn í dag.

„Ég reyndi að hafa hemil á mannskapnum og reyndi að eyða öllu þessu tali um fimm bikara. Það tókst loksins með leiknum gegn Fulham. Sá leikur var góður fyrir okkur að því leyti að þar með fauk allt tal um að við værum ósigrandi og óstöðvandi út í veður og vind. Okkur var gerður mikill greiði með þessu. Nú erum við komnir í þá stöðu að við einbeitum okkur að því að spila fótbolta en ekki að því að lesa blöð. Enginn leikur hefur unnist á pappírum hingað til. Fyrir tveimur vikum sagði ég að allir vildu lesa jákvæða hluti um sjálfa sig. Það er eðlilegt, og það getur haft sín áhrif. Það er mikið af ungum strákum í okkar hópi svo þetta var sennilega rétti tímapunkturinn til að fá þennan tapleik gegn Fulham," sagði Ferguson.

Lið hans mætir Aston Villa á sunnudag en nú skilur aðeins eitt stig að Manchester United og Liverpool á toppi úrvalsdeildarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert