Frækinn sigur Chelsea á Anfield - Barcelona burstaði Bayern

Fernando Torres skorar fyrir Liverpool á Anfield í kvöld.
Fernando Torres skorar fyrir Liverpool á Anfield í kvöld. Reuters

Chelsea og Barcelona standa vel að vígi í Meistaradeildinni eftir góða sigra í kvöld. Chelse gerði sér lítið fyrir og lagði Liverpool, 3:1, á Anfield eftir að hafa lent undir og Börsungar unnu öruggan sigur á Bayern München, 4:0, þar sem Eiður Smári Guðjohnsen sat á bekknum allan tímann.

Liverpool - Chelsea 1:3 bein lýsing hér

Leiknum er lokið með 3:1 sigri Chelsea. 

Petr Cech ver með tilþrifum skot frá Xabi Alonso.

Didier Drogba var að bæta þriðja markinu við fyrir Chelsea á 68. mínútu og útlitið er orðið dökkt hjá heimamönnum. Eftir vel útfærða sókn átti Malouda sendingu inn á vítateiginn og þar kom Drogba á fleygiferð og skoraði.

Branislav Ivanovic var að koma Chelsea í 2:1 á 62. mínútu með öðru skallamarki eftir hornspyrnu. Liverpool vörnin var gjörsamlega sofandi en þrír leikmenn Chelsea voru óvaldaðir í teignum og var Ivanovic einn þeirra.

John Terry fyrirliði Chelsea var að næla sér í gult spjald. Afar strangur dómur en þetta þýðir að Terry verður í leikbanni í seinni leiknum. 

Torres var kominn í gott færi en skot hans fór rétt framhjá. Leikurinn er frábær skemmtun og færi á báða bóga.

Jamie Carragher kemur Liverpool til bjargar á 51. mínútu en honum tókst að bjarga skoti Drogba af marklínu. 

Chelsea hefur jafnað metin en Branislav Ivanovic skoraði með skalla eftir hornspyrnu á 38. mínútu. Andtartaki síðar brenndi Kuyt af úr dauðafæri fyrir Liverpool.

Didier Drogba fékk dauðafæri á 28. mínútu en þrumskot hans rétt utan markteigsins fór yfir og þar sluppu heimamenn með skrekkinn. 

Fyrri hálfleikurinn á Anfield er hálfnaður og Liverpool yfir, 1:0. Chelsea hefur sótt í sig veðrið síðustu mínúturnar, 

Liverpool hefur fengið óskabyrjun en eftir 6 mínútna leik skoraði Fernando Torres með skoti úr miðjum vítateignum eftir frábæra hælsendingu frá Dirk Kyut.

Barcelona - Bayern München 4:0 bein lýsing hér

Börsungar höfðu hægt um sig í seinni hálfleik og létu mörkin 4 í fyrri hálfleik nægja. Eiður Smári þurfti að bíta í það súra epli að verma varamannabekkinn allan tímann. 

Börsungar hafa dregið úr hraðanum og staðan er sú sama og í hálfleik eða 4:0. Guardiola hefur engar breytingar gert á liði sínu en vonandi fær Eiður Smári að spreyta sig. 

Börsungar eru gjörsamlega að slátra þýsku meisturunum en Thierry Henry var að bæta við fjórða markinu á 43. mínútu. 

Barcelona er að tryggja sér sæti í undanúrslitunum. Messi var að bæta við þriðja markið og öðru marki sínu í leiknum.

Howard Webb dómari er búinn að vísa Pep Guardiola þjálfara Börsunga af varamannabekknum vegna mótmæla. Rétt áður fékk Messi að líta gula spjaldið fyrir mótmæli. 

Barcelona er komið í 2:0 eftir 12 mínútna leik en Kamerúninn Samuel Eto'o var að skora enn eitt markið fyrir Katalóníuliðið. 

Argentínski snillingurinn Lionel Messi er búinn að koma Barcelona yfir á Nou Camp eftir sendingu frá Samuel Eto'o.

Thierry Henry og Samuel Eto'o fagna með stæð á Nou …
Thierry Henry og Samuel Eto'o fagna með stæð á Nou Camp í kvöld. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert