Jenas: Webb kiknaði undan pressunni

Dimitar Berbatov skorar fimmta mark United án þess að Jenas …
Dimitar Berbatov skorar fimmta mark United án þess að Jenas og Gomes komi vörnum við. Reuters

Jermaine Jenas miðvallarleikmaður Tottenham segir að dómarinn Howard Webb hafi ekki þolað pressuna þegar hann dæmdi vítaspyrnu á Gomes markvörð Tottenham eftir viðskipti við Michael Carrick í viðureign Manchester United og Tottenham í fyrradag.

Cristiano Ronaldo skoraði úr vítaspyrnunni og lagaði stöðuna fyrir United í 1:2 en í kjölfarið fylgdu fjögur mörk og Manchester-liðið fagnaði 5:2 sigri.

,,Þetta var skýrt dæmi um hvernig dómarar kikna undan pressunni á Old Trafford,“ segir Jenas í viðtali við breska blaðið Daily Mirror en hann vill meina eins og allir Tottenham menn að Gomes hafi komið höndum á boltann en ekki fellt Carrick.

,,Ég vil ekki vera með neinar afsakanir. Við fengum fjögur mörk á okkur eftir þetta, ódýr mörk, en leikurinn hefði verið allt öðruvísi ef United hefði ekki skorað þetta fyrsta mark,“ segir Jenas.

,,Dómarinn hugsaði sig ekki tvisvar um þegar hann dæmdi vítið og það er eins og hann hafi verið búinn að ákveða sig þegar hann kom út eftir leikhléið að færa þeim þetta.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert