Ferguson pirraður yfir tímasetningunni

Alex Ferguson er kominn með sitt lið til Middlesbrough.
Alex Ferguson er kominn með sitt lið til Middlesbrough. Reuters

Manchester United sækir Middlesbrough heim í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni klukkan 11.45 og Alex Ferguson knattspyrnustjóri United er óhress með að lið hans þurfi að spila á þessum tíma, þar sem það var á ferð í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöldið, aðeins hálfum þriðja sólarhring áður.

„Það ætti ekkert lið að þurfa að spila snemma á laugardegi eftir að hafa spilað Evrópuleik í miðri viku. Maður skyldi halda að skrifstofufólið myndi átta sig á þessu," sagði Ferguson við BBC.

Lið hans er með þriggja stiga forskot og fær tækifæri til að breikka bilið á Liverpool en Liverpool mætir Newcastle á Anfield á morgun en í dag  mætast Chelsea og Fulham í nágrannaslag í London.

Það eru þó ekki allir þreyttir í liði United. Ryan Giggs lék aðeins í 20 mínútur gegn Arsenal á miðvikudagskvöldið og Paul Scholes var ekki með. Þá er Wes Brown tilbúinn í slaginn í fyrsta skipti síðan í janúar. Tvísýnt er hvort Jonny Evans nái að leysa Rio Ferdinand af hólmi í vörninni vegna smávægilegra meiðsla og þá gæti Brown komið inní byrjunarliðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert