Man Utd. í úrslitaleikinn eftir 3:1 sigur á Arsenal

Darren Fletcher fær að líta rauða spjaldið og missir af …
Darren Fletcher fær að líta rauða spjaldið og missir af úrslitaleiknum. Reuters

Manchester United leikur til úrslita í Meistaradeildinni annað árið eftir 3:1 sigur á Arsenal í síðari viðureign liðanna í undanúrslitum keppninnar á Emirates í kvöld. United vann einvígið samanlagt, 4:1, og mætir annað hvort Chelsea eða Barcelona sem eigast við á Stamford Bridge á morgun.

Evrópumeistararnir sem fá tækifæri til að verða fyrstir til að verja titil sinn í Meistaradeildinni í Róm í næsta mánuði gerðu út um leikinn á 11. mínútunum en þeir gerðu þá tvö mörk og voru Ji-Sung Park og Cristiano Ronaldo þar af verki. Ronaldi kom svo United í 3:0 eftir klukktímaleik áður en Robin van Persie náði að laga stöðuna fyrir heimamenn stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Textalýsing frá leiknum er hér að neðan:

90. Leiknum er lokið með 3:1 sigri Manchester United.

74. MARK!! Robin van Persie skorar fyrir Arsenal úr vítaspyrnu og lagar stöðuna í 1:3. Vítaspyrnan var dæmd á Darren Fletcher fyrir brot á Fabregas sem var í kjölfarið rekinn af velli og missir því af úrslitaleiknum. Vítaspyrnan var strangur dómur því ekki var betur séð en að Fletcher hefði náð að koma við boltann. Arsenal þarf 4 mörk til viðbótar til að komast í úrslitaleikinn.

Sir Alex Ferguson er búinn að kippa Evra og Rooney af velli þar sem þeir eru báðir á hættusvæði. Rafael da Silva og Dimitar Berbatov eru komnir í inná stað þeirra.

61. MARK!! Cristiano Ronaldo kemur Manchester United í 3:0 eftir magnaða skyndisókn þar sem Ronaldo var upphafsmaðurinn og batt endahnútinn sjálfur. Samanlögð staða er nú orðin, 4:0, en haldi einhver Arsenal maður í vonina þarf liðið að skora fimm mörk til að komast í úrslitin.

52. Manuel Almunia ver með tilþrifum þrumuskot frá Ronaldo sem hefur verið virkilega sprækur í liði meistaranna.

David Beckham er á meðal áhorfenda á Emirates en hann hefur taugar til beggja liða. Beckham var að sjálfsögðu leikmaður United til margra ára og í fyrra fékk hann að æfa með liði Arsenal þegar hann var að koma sér í form.

46. Síðari hálfleikur er hafinn á Emirates. Arsene Wenger gerir eina breytingu á liði sínu. Emmanuel Eboe tekur stöðu Kieran Gibbs. Lið United er óbreytt en ekki er ósennilegt að Rooney verði kallaður af velli fljótlega enda á hann á hættu að missa af úrslitaleiknum. 

45. Ítalski dómarinn Roberto Rosetti hefur flautað til leikhlés á Emirates þar sem Englands- og Evrópumeistararar Manchester United hafa 2:0 forystu og eru í ansi þægilegum málum eftir að hafa unnið fyrri leikinn, 1:0.

35. Manchester United er með góð tök á leiknum og mótlætið er farið að gera vart við sig hjá leikmönnum Arsenal. 

18. Wayne Rooney er nálægt því að bæta þriðja markinu við en Manuel Almunina tókst með naumindum að verja skot hans í horn.  Arsenal menn eru steinrunnir og trúa ekki sínum eigin augum. Þeir eru 0:2 undir.

11. MARK!! Cristiano Ronaldo er að skjóta Manchester United í úrslitaleikinn. Portúgalinn frábæri var að bæta öðru marki við með þrumuskoti beint úr aukaspyrnu. Arsenal þarf nú að skora fjögur mörk til að komast áfram og í úrslitaleikinn. Þetta eru fyrstu mörkin sem Arsenal fær á sig á heimavelli í Meistaradeildinni á þessari leiktíð.

8. MARK!! Ji-Sung Park er búinn að koma United yfir. Gibbs bakvörður Arsenal liðsins skrikaði fótur eftir fyrirgjöf frá Ronaldo og Kóreumaðurinn þakkaði pent fyrir sig og skoraði af öryggi. Nú þarf Arsenal að skora 3 mörk til komast í úrslitaleikinn. Markið kemur eins og köld vatngusa framan í leikmenn Arsenal sem hófu leikinn af krafti.

Ji-Sung Park fagnar marki sínu á Emirates í kvöld.
Ji-Sung Park fagnar marki sínu á Emirates í kvöld. Reuters
Cristiano Ronaldo fagnar hér marki sínu ásamt John O'Shea.
Cristiano Ronaldo fagnar hér marki sínu ásamt John O'Shea. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert