Grétar Rafn vill liðsstyrk til Bolton

Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson. Reuters

Grétar Rafn Steinsson, bakvörðurinn knái í liði Bolton í ensku úrvalsdeildinni, segir í fjölmiðlum í dag að hann vilji styrkja leikmannahópinn fyrir næstu leiktíð, því liðið hafi keyrt á litlum hóp í allan vetur.

„Við þurfum að styrkja hópinn, svo mikið er víst. Við erum með góða leikmenn, unga leikmenn sem falla vel inn í hópinn og mórallinn er góður. Ég vil ekki missa þann góða móral og þá samstöðu, en við þurfum á leikmönnum að halda því við erum með lítinn leikmannahóp og höfum notað nánast þá sömu 11 leikmenn í allan vetur. Við þurfum að kaupa, en ekki að selja. Við getum ekki hafið aðra leiktíð með nánast sama mannskap allar helgar, þannig að við þurfum að kaupa menn ef við ætlum okkur að gera einhverja hluti á næstu leiktíð. Stjórinn (Gary Megson) veit þetta og vill þetta líka, og verður því spennandi að sjá hvað gerist. Nú kemur bara í ljós í hvaða sæti við endum og hvað við fáum mikla peninga til leikmannakaupa,“ sagði Grétar Rafn.

Bolton situr í 13. sæti úrvalsdeildarinnar með 41 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert