United hefur tekið tilboði frá Real Madrid í Ronaldo

Cristiano Ronaldo er án efa einn besti knattspyrnumaður heims.
Cristiano Ronaldo er án efa einn besti knattspyrnumaður heims. Reuters

Englandsmeistarar Manchester United hafa tekið 80 milljóna punda tilboði, sem jafngildir um 17 milljörðum íslenskra króna, frá spænska félaginu Real Madrid í portúgalska knattspyrnumanninn Cristiano Ronaldo.

Í yfirlýsingu sem Manchester United sendi frá sér um málið segir meðal annars;

,,Manchester United hefur fengið 80 milljón punda tilboð í Cristiano Ronaldo frá Real Madrid. Að beiðni Ronaldos, sem hefur látið í ljós löngum sína að fara frá félaginu og eftir viðræður við umboðsmann leikmannsins, hefur Manchester United gefið Real Madrid leyfi til að ræða við leikmanninn.“

Verði af kaupunum verður Ronaldo dýrasti knattspyrnumaður heims en fyrr í vikunni gekk Real Madrid frá kaupum á Brasilíumanninum Kaká fyrir 56 milljónir punda, sem jafngildir um 12 milljörðum króna. Með þeirri sölu er Kaká dýrasti knattspyrnumaður heims.

Ronaldo, sem er 24 ára gamall, gekk í raðir Manchester United frá portúgalska liðinu Sporting Lissabon árið 2003. United greiddi 12,2 milljónir punda fyrir Portúgalann og er óhætt er að segja að kaupin hefi reynst góð fjárfesting.

Ronaldo sló í gegn með Manchester-liðinu og þrír Englandsmeistaratitlar á jafnmörgum árum og Evrópumeistaratitillinn í fyrra er ekki síst Portúgalanum snjalla að þakka. Hann hefur verið algjör lykilmaður í Manchester-liðinu og var útnefndur knattspyrnumaður heims og Evrópu fyrir frammistöðu sína 2008.

Ronaldo verður sárt saknað í herbúðum Manchester United.
Ronaldo verður sárt saknað í herbúðum Manchester United. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert