Fyrsti stórleikur tímabilsins

Arsene Wenger og Sir Alex Ferguson leiða saman hesta sína …
Arsene Wenger og Sir Alex Ferguson leiða saman hesta sína á Old Trafford í dag. Reuters

Fyrsti stórleikurinn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á þessari leiktíð er á dagskrá í dag þegar Englandsmeistarar Manchester United fá Arsenal í heimsókn á Old Trafford og hefst rimma liðanna klukkan 16.15 að íslenskum tíma.

Arsenal hefur byrjað tímabilið vel, hefur unnið báða leiki sína í deildinni og sló Celtic sannfærandi út í Meistaradeildinni. United er með sex stig eftir þrjá leiki en meistararnir hrukku heldur betur í gírinn um síðustu helgi þegar þeir gjörsigruðu Wigan á útivelli, 5:0.

,,Leikurinn við Manchester United á Old Trafford verður prófsteinn á okkar lið,“ segir Arsene Wenger. ,,Við viljum sýna að við getum unnið stórleikina á útivelli og það er gott tækifæri að gera það nún.

Við vitum að við mætum á Old Trafford með gott sjálfstraust og það er mikilvægt fyrir stórleik sem þennan. ,,Ég get ekki fundið neinn veikleika á liði Manchester United en hvað mitt lið varðar þá hef ég fulla trú á því og þeim hæfileikum sem það hefur yfir að búa. Það er góður andi í liðinu og mikil samstaða,“ segir Wenger.

Manchester United - Arsenal (kl.16.15)

*Rio Ferdinand er frá í liði Manchester United vegna meiðsla sem og Edwn van der Sar og sömu sögu er að segja um Cesc Fabregas fyrirliða Arsenal.

*Arsenal hefur tapað sex af síðustu átta leikjum sínum á Old Trafford. Arsenal hafði betur síðast á Old Trafford árið 2006 þegar Emmanuel Adebayor skoraði sigurmarkið.

*Sir Alex Ferguson og Arsene Wenger leiða saman hesta sína í 41. sinn. Ferguson hefur haft betur 15 sinnum, Wenger 14 sinnum og 11 sinnum hefur niðurstaðan orðið jafntefli.

*Takist Manchester United að vinna í dag verður það 1.000 sigur liðsins í ensku úrvalsdeildinni.

*Í deildarleikjum liðanna á síðustu leiktíð hafði Arsenal betur. Á Emirates Stadium sigraði Arsenal, 2:1, og 0:0 varð niðurstaðan á Old Trafford.


 



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert