Chelsea eygir von um leikmannakaup í janúar

Chelsea gæti styrkt hóp sinn í janúar.
Chelsea gæti styrkt hóp sinn í janúar. Reuters

Enska knattspyrnufélagið Chelsea eygir nú von um að geta keypt leikmenn í janúar næstkomandi, þrátt fyrir úrskurð Alþjóða knattspyrnusambandsins þess efnis að félagið megi ekki fara á leikmannamarkaðinn fyrr en í janúar 2011.

Chelsea hyggst áfrýja úrskurðinum til Alþjóða íþróttadómstólsins og ritari hans staðfesti við BBC í kvöld að enska félagið gæti með því frestað gildistöku úrskurðarins framyfir félagaskiptagluggann í janúar.

„Það fer eftir því hvenær áfrýjunin er dagsett. Ef hún kemur í næstu viku verður málið tekið fyrir í nóvember og þá er úrskurðar að vænta í desember. Ef Chelsea nýtir sér allan frestinn til áfrýjunar, 21 dag, gæti þurft að bíða með úrskurðinn framí janúar," sagði ritarinn, Matthieu Reeb.

"Chelsea getur krafist þess að úrskurður FIFA taki ekki gildi fyrr en endanleg niðurstaða Alþjóða íþróttadómstólsins liggur fyrir. Ef hann staðfestir síðan úrskurð FIFA, tæki hann ekki gildi fyrr en í næsta félagaskiptaglugga," sagði Reeb.

FIFA bannaði Chelsea að kaupa leikmenn fyrr en í janúar 2011 eftir að í ljós kom að enska félagið hefði haft rangt við þegar það fékk franska táninginn Gael Kakuta í sínar raðir frá Lens fyrir tveimur árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert