Guðjón rekinn frá Crewe

Guðjón Þórðarson er hættur hjá Crewe.
Guðjón Þórðarson er hættur hjá Crewe. www.crewealex.net

Stjórn enska knattspyrnufélagsins Crewe Alexandra ákvað á fundi í gærkvöldi að segja knattspyrnustjóranum, Guðjóni Þórðarsyni, upp störfum. Ástæðan er afleitt gengi liðsins það sem af er keppnistímabilinu. Guðjón hefur verið hjá félaginu í 10 mánuði.

Crewe er í neðstu deild á Englandi, sem heitir reyndar 2. deild. Liðið hefur lokið 10 leikjum og aðeins fengið 10 stig. Crewe féll niður um deild í fyrra og stefnan var sett á að fara beint upp eftir en eftir slæma byrjun virðist það varla raunhæft og forráðamenn liðsins vildu grípa í taumana strax.

Crewe tapaði á þriðjudaginn fjórða deildarleiknum í röð þegar Bury kom í heimsókn. Úrslitin urðu 3:2 og Crewe er nú í neðri hluta deildarinnar.

Dario Gradi, sem nú er tæknilegur ráðgjafi hjá Crewe, tekur við stjórnvelinum tímabundið, en hann var árum saman knattspyrnustjóri félagsins.

„Þetta er mikilvægt keppnistímabil fyrri okkur,“ er haft eftir stjórnarformanni Crewe, John Bowler, á fréttavef staðarblaðsins Sentinnel. „Við viljum komst aftur upp í 1. deild sem fyrst og úrslitin upp á síðkastið hafa ekki verið nógu góð. Þess vegna verðum við að gera breytingar eins fljótt og hægt er ef við ætlum að komast aftur á rétta braut.“

Fyrrum knattspyrnustjóri liðsins, Dario Gradi, mun stýra liði Crewe tímabundið og stjórna því í leiknum gegn Roterham á morgun en Gradi, sem er 68 ára gamall, er sá maður sem hefur verið lengst við stjórnvölinn hjá félaginu en hann var stjóri liðsins frá 1983 til 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert