Írar skora á Blatter að setja leikinn á að nýju

Sean St Ledger og Damien Duff, leikmenn Íra, vonsviknir á …
Sean St Ledger og Damien Duff, leikmenn Íra, vonsviknir á vellinum í leikslok. Reuters

Írar hafa skorað á Sepp Blatter, forseta Alþjóða knattspyrnusambandsins, að standa við þau stóru orð sem hann hafi viðhaft um heiðarleika í fótboltanum og fyrirskipa að leikur Frakklands og Írlands í umspilinu um HM-sætið verið endurtekinn. Þeir saka jafnframt sænska dómarann um lygar í leikslok.

Írar eru æfir og vonsviknir yfir markinu sem Frakkar skoruðu í framlengingu á Stade de France í gærkvöldi. Þeir jöfnuðu þá, 1:1, og tryggðu sér með því sæti í úrslitakeppni HM en Írar sitja eftir með sárt ennið.

Thierry Henry lagði boltann greinilega fyrir sig með hendi áður en hann sendi á William Gallas sem skoraði markið. Henry var sjálfur fljótur að viðurkenna sekt sína en benti á að málið væri í höndum dómarans.

„Ef heiðarleiki og réttlæti fá að ráða ríkjum í fótboltanum förum við aftur til Frakklands og spilum leikinn að nýju. Sepp Blatter talar mikið um háttvísi og heiðarleika - fáum viðbrögð frá honum á það sem gerðist. Hvað verður um fótboltann ef óheiðarleikinn fær að ráða úrslitum? Hvar stöndum við ef þessi úrslit fá að standa?" sagði Liam Brady, aðstoðarþjálfari Íra, við Sky Sports.

Kevin Kilbane, varnarmaður Íra og Hull City, kvaðst hafa rætt við sænska dómarann eftir leikinn. „Ég fór til dómarans og spurði hann hvað hefði gerst og hvort hann hefði séð þegar Henry handlék boltann. Hann sagðist vera 100 prósent viss um að þetta hefði ekki  verið hendi. Þegar hann sagði þetta, sá ég að hann var augljóslega að ljúga að mér. Það var það versta við þetta," sagði Kilbane.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert