Benítez: Sjálfstraustið er lítið

Steven Gerrard og Rafael Benítez taka á móti Wolves á …
Steven Gerrard og Rafael Benítez taka á móti Wolves á morgun. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að sjálfstraust leikmanna liðsins sé lítið eftir erfitt gengi að undanförnu og nú sé það sitt stærsta verkefni að byggja það upp að nýju.

Liverpool tekur á móti Wolves á Anfield á morgun í ensku úrvalsdeildinni en liðið hefur aðeins náð að vinna einn af síðustu fimm leikjum sínum og er sigið niður í áttunda sæti deildarinnar.

„Það er á mína ábyrgð að byggja upp sjálfstraustið á ný. Til þess þarf ég að vera jákvæður, það er eina leiðin. Skilaboðin eru skýr, hæfileikarnir eru til staðar í hópnum og við þurfum að ná þeim fram.

Við getum tekið okkur til og unnið nokkra leiki í röð, það höfum við áður gert með þennan sama leikmannahóp. Það er sú jákvæðni sem við þurfum að viðhalda," sagði Benítez á vef félagsins.

Hann viðurkenndi að meiðslin hjá Steven Gerrard og Fernando Torres í vetur hefðu sett strik í reikninginn. Hvorugur hefur getað æft af fullum krafti og hafa báðir misst úr leiki. „Þeir voru báðir valdir í heimsúrval FIFA í vikunni og það sýnir best hversu góðir þeir eru og hvað þeir geta gert. En þegar þeir eru ekki í fullri æfingu, geta þeir ekki sýnt allt sem í þeim býr," sagði Benítez.

Leikur Liverpool og Wolves er síðasti leikur morgundagsins og hefst kl. 17.30 á Anfield. Liverpool er í 8. sæti deildarinnar með 27 stig en Wolves er í 12. sætinu með 19 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert