Wenger: Þetta lið gefst aldrei upp

William Gallas og Bacary Sagna hjá Arsenal fögnuðu ekki í …
William Gallas og Bacary Sagna hjá Arsenal fögnuðu ekki í leikslok heldur minntu alla viðstadda á söfnunina vegna jarðskjálftans á Haiti. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði eftir sigurinn á Bolton í kvöld að sitt lið hefði sýnt að það  gæfist aldrei upp. Arsenal lenti 0:2 undir en sigraði 4:2 og komst þar með uppfyrir Chelsea á markatölu og í toppsæti úrvalsdeildarinnar.

„Við sköpuðum okkur fullt af færum og liðið sýndi enn og aftur að það gefst aldrei upp. Markið sem Rosický skoraði í lok fyrri hálfleiks var okkur gífurlega dýrmætt. Það dró úr sjálfstrausti Boltonmanna, og efldi okkar að sama skapi, þannig að það var vendipunktur í leiknum," sagði Wenger við Sky Sports, en Tomás Rosický minnkaði muninn í 1:2 rétt fyrir hlé. Arsenal skoraði síðan þrívegis í síðari hálfleiknum.

Jöfnunarmark Arsenal virtist  vafasamt því William Gallas braut á Mark Davies rétt áður en Cesc Fabregas fékk boltann og skoraði, 2:2. Owen Coyle, knattspyrnustjóri Bolton, mótmælti því ákaft og sagði að það hefði gert gæfumuninn fyrir Arsenal.

„Sjáið til, ef þið viljið sjá ummerki um öll þau brot sem við höfum orðið fyrir í þessum tveimur leikjum gegn Bolton, megið þið koma inní búningsklefann okkar og sjá fæturna á mínum leikmönnum. Það var sparkað í þá úr öllum áttum, svo ég held að þeir hjá Bolton geti ekki kvartað mikið. Það yrði fróðlegt að klippa saman myndir af þeirra tæklingum og okkar tæklingum í þessum tveimur leikjum og bera þær saman," sagði Wenger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert