United hafði betur á Emirates

Darren Fletcher og Ji-Sung Park fagna marki þess síðarnefnda í …
Darren Fletcher og Ji-Sung Park fagna marki þess síðarnefnda í dag. Reuters

Manchester United styrkti stöðu sína í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með 3:1 sigri á Arsenal á Emirates-leikvanginum í stórleik helgarinnar. United er nú stigi á eftir Chelsea en Arsenal er í 3. sæti fimm stigum frá toppnum. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Portúgalinn Nani sá um að koma United í 1:0 á 33. mínútu með glæsilegu einstaklingsframtaki. Hann fékk boltann úti á hægri kanti og lék á þrjá Arsenal-menn áður en hann vippaði boltanum inn í markteiginn þar sem Almunia sló knöttinn í netið.

Nani lagði svo upp annað mark á 37. mínútu þegar hann kom boltanum á Wayne Rooney í skyndisókn og Rooney skoraði sitt 100. mark í úrvalsdeildinni með viðstöðulausu og hnitmiðuðu skoti.

Ji-Sung Park bætti við þriðja markinu á 52. mínútu eftir snarpa skyndisókn. Park bar boltann fram völlinn sjálfur og hafði Nani og Rooney með sér en ákvað að skjóta sjálfur og skoraði af öryggi.

Arsenal náði að minnka muninn í 3:1 á 79. mínútu þegar Thomas Vermaelen átti skot að marki af vítateigslínunni en boltinn fór af Johnny Evans og í markið.

Byrjunarlið Arsenal: Almunia, Sagna, Gallas, Vermaelen, Clichy, Fabregas, Song Billong, Denilson, Nasri, Arshavin, Rosicky.
Varamenn: Fabianski, Walcott, Ramsey, Silvestre, Eboue, Traore, Bendtner.
Byrjunarlið Man Utd: Van der Sar, Rafael Da Silva, Jonathan Evans, Brown, Evra, Scholes, Carrick, Fletcher, Nani, Rooney, Park.
Varamenn: Kuszczak, Owen, Berbatov, Giggs, Valencia, Gibson, De Laet.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert