West Ham fær Mido lánaðan

Mido fagnar marki fyrir Middlesbrough gegn Newcastle.
Mido fagnar marki fyrir Middlesbrough gegn Newcastle. AP

Egypski knattspyrnumaðurinn og vandræðabarnið Mido er kominn til Englands enn á ný og verður í láni hjá West Ham næstu fjóra mánuðina. Lundúnaliðið virðist lítið þurfa að greiða fyrir kappann.

Mido er enn leikmaður Middlesbrough en hefur verið í láni hjá Zamalek í heimalandi sínu í vetur. Hann staðfesti við Sky Sports síðdegis að hann væri kominn í raðir West Ham, á lágum launum en til þess að sýna sig og sanna á ný. David Sullivan, annar eigenda West Ham, hafði áður sagt að Mido hefði boðist til að leika með liðinu fyrir 1.000 pund á viku.

Mido, sem verður 27 ára síðar í þessum mánuði, hefur heldur betur átt skrautlegan feril. Hann fór 17 ára frá Zamalek til Gent í Belgíu, þaðan til Ajax í Hollandi, Celta Vigo á Spáni, Marseille í Frakklandi og Roma á Ítalíu.

Ferill hans á Englandi hófst árið 2005 þegar hann gekk til liðs við Tottenham, en eftir tvö ár þar fór Mido til Middlesbrough. Þar hefur hann aðeins spilað 25 leiki á hálfu þriðja ári en verið í láni um skeið hjá Wigan, síðan Zamalek og nú West Ham.

 Hann hefur skorað 23 mörk í 50 landsleikjum fyrir Egypta en þar hefur hann tvisvar verið settur í bann fyrir framkomu sína og ekki spilað með landsliðinu síðustu misserin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert