United burstaði AC Milan en Real Madrid úr leik

Patrice Evra í baráttu við Klaas Jan Huntelaar á Old …
Patrice Evra í baráttu við Klaas Jan Huntelaar á Old Trafford í kvöld. Reuters

Englandsmeistarar Manchester United tryggðu sér léttilega sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. 4:0 urðu lokatölurnar á Old Trafford og United vann einvígið, 7:2. Cristiano Ronaldo og félagar hans í Real Madrid eru hins vegar úr leik eftir 1:1 jafntefli gegn Lyon.

Man Utd - AC Milan, 4:0 (7:2 samanlagt)

90. Leik lokið með sigri Manchester United, 4:0. 

87.MARK!! Ensku meistararnir eru ekkert að slaka á klónni. Darren Fletcher var að bæta við fjórða markinu með skalla af stuttu færi eftir sendingu frá Rafael. 

74. Beckham tók boltann á lofti og átti þrumuskot sem fór beint á Van der Sar og Hollendingurinn náði að slá hann yfir markið. 

66. Ekki eru fagnaðarlætin minni þegar Wayne Rooney er kallaður af leikvelli. Honum er klappað lof í lófa. Neville fer einnig af velli og inná koma Rafael og Berbatov. 

63. Mikil fagnaðarlæti brjótast út á Old Trafford enda er sjálfur David Beckham að koma inná. Hann er enn í guða tölu hjá stuðningsmönnum Manchester United.

59.MARK!! Úrslitin eru ráðin á Old Trafford. Kóreumaðurinn Park var að koma heimamönnum í 3:0 með góðu skoti eftir vel útfærða sókn og góða sendingu frá Paul Scholes.

54. Klaas Jan Huntelaar skallar yfir mark Englandsmeistaranna úr mjög góðu færi.

46.MARK!! Eftir 58 sekúndur í seinni hálfleik skoraði Rooney eftir glæsilegan undirbúning hjá Nani. 30. mark Rooney á leiktíðinni staðreynd. AC Milan þarf nú að skora 4 mörk til eiga möguleika á að komast áfram en þrjú til að knýja framlengingu að því gefnu að United bæti ekki fleiri mörkum við.

46. Clarance Seedorf sá mikli reynslubolti sem hefur orðið Evrópumeistari með þremur liðum er kominn inná fyrir AC Milan. 

45. Hálfleikur á Old Trafford þar sem Manchester United er með forystu, 1:0. Heimamenn hafa verið sterkari aðilinn en ekki hefur verið mikið um marktækifæri.

13.MARK!! Wayne Rooney með enn eitt skallamarkið og staða United er orðin vænleg. Það var fyrirliðinn Gary Neville sem átti sendingu beint á kollinn á Rooney.  AC Milan þarf nú að skora 3 mörk til að eiga möguleika á að komast áfram.

8. Ronaldinho var hársbreidd frá því að koma Milan yfir en kollspyrna hans eftir aukaspyrnu fór hárfínt framhjá. 

3. Rooney minnir strax á sig en framherjinn snjalli átti skot rétt framhjá marki AC Milan.

Real Madrid - Lyon, 1:1 (1:2 samanlagt)

90. leik lokið með 1:1 jafntefli. Lyon er komið áfram. 

75. MARK!! Miralem Pjanic var að jafna metin fyrir Lyon og nú er útlitið dökkt hjá níföldum Evrópumeisturum Real Madrid sem þurfa að skora tvö mörk til að komast áfram.

Lyon hefur byrjað seinni hálfleikinn vel í Madrid og það fer skjálti um stuðningsmenn Real Madrid þar sem staðan er enn, 1:0, og jöfn samanlagt, 1:1. 

Real Madrid hefur stjórnað ferðinni fyrsta hálftíma leiksins og staðan gæti hæglega verið, 3:0. Hiugain fékk algjört dauðafæri en klúðraði því á ótrúlegan hátt.

6. MARK!! Cristiano Ronaldo er búinn að koma Madridarliðinu yfir á Santiago Bernabeu og hefur þar með jafnað metin í einvíginu. Þetta er áttunda mark Ronaldos í Meistaradeildinni á tímabilinu og er hann markahæstur.

Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu gegn Lyon.
Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu gegn Lyon. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert