Zola að gefast upp á átökum innan West Ham?

Það mæðir mikið á Gianfranco Zola, ekki síst eftir fimm …
Það mæðir mikið á Gianfranco Zola, ekki síst eftir fimm tapleiki West Ham í röð. Reuters

Gianfranco Zola, knattspyrnustjóri West Ham er að gefast upp á átökunum sem eru í gangi innan félagsins og gæti sagt upp störfum eftir leikinn gegn Stoke í dag, jafnvel þó lið hans beri sigur úr býtum.

Þetta er fullyrt í ítarlegri grein um stöðu mála hjá West Ham í enska blaðinu The Telegraph í dag.

Zola fékk 100 prósent stuðningsyfirlýsingu frá öðrum aðaleigandanum, David Sullivan, í vikunni, eftir að þrálátur orðrómur hefði verið í gangi um að hann yrði rekinn eftir 1:3 skellinn gegn Wolves á heimavelli á þriðjudagskvöldið.

The Telegraph segir að þar sem West Ham sé enn að hálfu í eigu hins fallna íslenska banka, Straums, þurfi Sullivan og David Gold, meðeigandi hans, leyfi þaðan til að segja Zola upp störfum.

Þeir Sullivan og Gold eru sagðir hafa verið mjög áberandi í kringum lið West Ham síðustu daga og Gold hefði rætt við leikmenn liðsins á æfingu í gær. Þá skrifaði Sullivan a vef félagsins á fimmtudag að hann vænti þess að gerðar yrðu breytingar á liðinu fyrir leikinn gegn Stoke sem fer fram í dag.

Matthew Upson, fyrirliði West Ham, hefur mótmælt orðum Sullivans og Zola sagði við The Telegraph í gær að hann hefði ekki rætt við stjórnarformanninn. Þegar blaðið spurði Zola hvort honum fyndist að eigendurnir væru að reyna að þvinga hann til að hætta svaraði hann: „Þetta er góð spurning, og ég hef ekki hugmynd um það. Mér skilst að stjórnarformaðurinn, herra Sullivan, hafi miklar áhyggjur af stöðunni. Við erum ekki vel settir og hann er áhyggjufullur. Það er ég líka en ég hef fulla trú á leikmönnum okkar," sagði Zola.

Leikur West Ham og Stoke hefst á Upton Park klukkan 15 í dag. West Ham er aðeins þremur stigum frá fallsæti eftir fimm töp í röð en liðið er með 27 stig, þremur meira en Hull og Burnley.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert