Scholes tryggði United dramatískan sigur

Paul Scholes tryggði United sigurinn með þessum skalla.
Paul Scholes tryggði United sigurinn með þessum skalla. Reuters

Manchester United lagði granna sína í Manchester City að velli með einu marki gegn engu þegar liðin áttust við í ensku úrvalsdeildinni í dag. Paul Scholes gerði sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótartíma. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

United er með sigrinum aðeins einu stigi á eftir Chelsea en Lundúnaliðið, sem situr á toppi deildarinnar, á leik til góða gegn Tottenham síðar í dag. City er áfram í 4. sæti, stigi á undan Tottenham sem á að sama skapi leikinn gegn Chelsea til góða.

Fylgst var með gangi mála í leiknum og fer leiklýsingin hér á eftir:

Fátt markvert gerðist fyrsta hálftíma leiksins. Carlos Tévez átti bestu marktilraunina en aukaspyrna hans upp í vinstri markvinkilinn var varin af Edwin van der Sar. Darren Fletcher og Paul Scholes áttu sitt hvort skotið utan teigs en naumlega framhjá marki City.

United átti tvö góð færi á síðustu fimm mínútum fyrri hálfleiks. Fyrst átti Wayne Rooney þrumuskot úr teignum eftir sendingu frá Antonio Valencia en boltinn fór rétt framhjá markinu. Ryan Giggs komst svo í gott færi skömmu síðar eftir aðra fyrirgjöf frá Valencia en viðstöðulaust skot Walesverjans af stuttu færi var laust og auðveldlega varið. Staðan því markalaus í leikhléi.

Seinni hálfleikur byrjaði rólega líkt og sá fyrri. Á 59. mínútu kom Portúgalinn Nani inná í stað Darron Gibson sem hafði ekki verið áberandi í leiknum. City gerði breytingu á sínu liði á 65. mínútu og kom Patrick Vieira inná í stað Adam Johnson.

Á 74. mínútu slapp Gareth Barry inn í vítateig United og féll við en dómari leiksins ákvað að dæma ekki vítaspyrnu, sem virtist rétt ákvörðun. Mínútu síðar fór Wayne Rooney af velli og í hans stað kom Dimitar Berbatov. Adebayor fór að sama skapi af velli og í hans stað kom Shaun Wright-Phillips.

Stephen Ireland kom inná í stað Nigel de Jong á 77. mínútu og Gabriel Obertan kom inná í stað Antonio Valencia á 80. mínútu.

City fékk sitt besta færi á 86. mínútu eftir hornspyrnu. Van der Sar fór þá í misheppnað úthlaup og boltinn barst til Onuoha við markteiginn en Vidic náði að renna sér fyrir skot hans.

Paul Scholes tryggði United hins vegar sigurinn með glæsilegum skalla eftir fyrirgjöf frá Patrice Evra þegar um þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Adebayor og Vidic eigast við í leiknum í dag.
Adebayor og Vidic eigast við í leiknum í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert