Enn eitt jafntefli City og Liverpool?

Mario Balotelli í búningi Manchester City.
Mario Balotelli í búningi Manchester City. Reuters

Engum þyrfti að koma á óvart þótt leik Manchester City og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld lyki með jafntefli. Liðin hafa skilið jöfn í fimm af síðustu sjö viðureignum sínum í deildinni.

Hvort lið mætir með eitt stig í farteskinu á Borgarleikvanginn í Manchester. Lið City gerði 0:0 jafntefli við Tottenham í London í fyrstu umferðinni og Liverpool  gerði 1:1 jafntefli við Arsenal á Anfield.

Þá er ekki hægt að búast við fjölda marka í kvöld því viðureignir liðanna hafa einkennst af flestu öðru. Aðeins 16 mörk hafa verið skoruð samtals í síðustu 11 viðureignum liðanna í úrvalsdeildinni.

Roberto Mancini knattspyrnustjóri City vonast eftir því að geta teflt Mario Balotelli, Ítalanum unga, fram í kvöld. Balotelli tryggði City sigur á Timisoara í Rúmeníu á fimmtudag, í Evrópudeild UEFA, en fékk högg á hné og er tæpur af þeim sökum. Mancini hefur farið fögrum orðum um Balotelli og sagt að hann hafi alla burði til að verða betri en Fernando Torres, framherji Liverpool.

Hjá City vantar Aleksandar Kolarov og Jérome Boateng, tvo af nýju mönnunum, sem og Wayne Bridge, en James Milner gæti spilað sinn fyrsta leik eftir að hann var keyptur af Aston Villa fyrir helgina.

Liverpool verður án Joe Cole, sem byrjar að afplána þriggja leikja bann. Þá er óvíst með Daniel Agger sem er að jafna sig eftir höfuðhögg og Javier Mascherano sem hefur glímt við meiðsli í kálfa.

Leikur liðanna hefst klukkan 19 á Borgarleikvanginum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert