Eiður Smári: Stórt skref fyrir mig

Eiður Smári.
Eiður Smári. www.stokecityfc.com

Eiður Smári Guðjohnsen lék í dag í 90 mínútur með varaliði Stoke City þegar liðið sigraði Walsall, 4:1. Eiður segir á vef Stoke að hann hafi tekið stórt skref fram á við með því að spila heilan leik en Eiður er hægt og bítandi að komast í form eftir þrotlausar æfingar undanfarnar þrjár vikur.

Eiður náði ekki að skora í leiknum en hann átti þátt í tveimur mörkum liðsins. ,,Þetta var stórt skref fyrir mig. Mér leið mun betur núna heldur en í leiknum með varaliðinu um daginn þegar ég spilaði í 45 mínútur. Ég held að sé nálægt því að vera kominn í gott form,“ segir Eiður Smári á vef Stoke en hann sat allan tímann á bekknum með aðalliðinu í gær þegar það vann Fulham, 2:0, í deildabikarnum.

,,Þetta hefur ekki verið fullkomin staða. Ég hefði kosið að taka þátt í öllu undirbúningstímabilinu með öllu liðinu og vera tilbúinn þegar tímabilið hófst. Þegar ég verð tilbúinn þá mun ég spila stóra rullu fyrir Stoke á tímabilinu og ég mun gefa stuðningsmönnunum eitthvað til að hrópa yfir. Stjórinn kaus að taka ekki áhættu með að nota mig í deildabikarnum í gær svo ég gæti spilað heilan leik með varaliðinu. Það var rétt ákvörðun,“ segir Eiður.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert