Hughes: Siðlaust og fáránlegt brot

Moussa Dembele var tæklaður illa í Stoke í gærkvöld.
Moussa Dembele var tæklaður illa í Stoke í gærkvöld. Reuters

Mark Hughes, knattspyrnustjóri Fulham, sakar Andy Wilkinson, varnarmann Stoke, um að brjóta á algjörlega siðlausan hátt á framherja sínum, Moussa Dembele, í leik liðanna í enska deildabikarnum í gærkvöld.

Stoke vann leik liðanna á Britannia, 2:0, og í lok uppbótartíma þegar beðið var eftir lokaflautinu braut Wilkinson afar gróflega á belgíska landsliðsmanninum Dembele, sem var borinn meiddur af velli og yfirgaf leikvanginn síðan á hækjum.

„Hafi hann sloppið við alvarleg meiðsli er hann stálheppinn. Þetta v ar gjörsamlega fáránleg og siðlaus tækling hjá varnarmanni Stoke. Þegar þú ert 2:0 yfir og leiknum að ljúka, eiga menn að bera virðingu fyrir öðrum leikmönnum. Þessi árás var gjörsamlega ástæðulaus á þessu stigi leiksins en með henni setti hann feril mótherja síns í hættu. Ég veit ekki hvern fjandann maðurinn var eiginlega að hugsa. Það fyrsta sem mér flaug í hug var að þarna hefðum við orðið vitni að skelfilegum meiðslum," sagði Hughes við fréttamenn eftir leikinn.

Dave Kemp, aðstoðarstjóri Stoke, tók undir með Hughes eftir leikinn og sagði að brotið hjá Wilkinson hefði verið algjörlega ástæðulaust. „Við ræddum við Andy eftir leikinn, þetta var óþarfi. Ég vona bara að leikmaðurinn sé ekki mikið meiddur," sagði Kemp.

Í morgun greina  svo enskir fjölmiðlar frá því að líklega hafi Dembele sloppið með skrekkinn og verði sennilega ekki frá keppni í nema tvær vikur eða svo.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert