Hodgson: Það er seigla í liðinu

Maxi Rodríguez fagnar sigurmarkinu ásamt Fernando Torres og Raúl Meireles.
Maxi Rodríguez fagnar sigurmarkinu ásamt Fernando Torres og Raúl Meireles. Reuters

Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Liverpool,  sagði að það væri mikil seigla í sínu liði eftir að það náði að knýja fram 1:0 útisigur á Bolton í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Maxi Rodríguez skoraði sigurmarkið þegar aðeins fjórar mínútur voru eftir og þar með flaug Liverpool úr fallsæti og alla leið uppí 12. sæti deildarinnar.

„Ég er smám saman að átta mig á því að það er mikil seigla í þessu liði því tveir sigrar í síðustu leikjum, gegn Blackburn og Bolton, sýna að við erum tilbúnir í slaginni. Ég vona að við getum byggt ofan á  þetta og komið Liverpool þangað sem við teljum það eiga heima," sagði Hodgson við BBC.

„Við vissum að það yrði fullt af löngum innköstum og löngum útspörkum, framherjar þeirra myndu bakka inní miðverðina okkar og reyna að knýja fram mistök hjá þeim. Við  vissum að þeir yrðu snöggir í "seinni  boltann", þannig að það var ljóst að til þess að geta spilað fótbolta varð fyrst að vinna fullt af návígjum. Þegar boltinn vinnst þarf að reyna að spila honum og það reyndum við að gera allan leikinn. Við komumst oft í góð sóknarfæri og sem betur fer skilaði eitt þeirra marki," sagði Hodgson.

„Þetta er góður kafli, ég vissi alltaf að við gætum þetta og að það myndi rofa til hjá okkur, en við eigum enn mikið verk fyrir höndum og svo glímum við við mikið af meiðslum sem stendur," sagði Roy Hodgson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert