Benítez: Gátum ekki stöðvað Bale

Rafael Benítez fylgist með leik sinna manna á White Hart …
Rafael Benítez fylgist með leik sinna manna á White Hart Lane í kvöld. Reuters

Rafael Benítez knattspyrnustjóri Ítalíu- og Evrópumeistara Inter sagði eftir ósigur sinna manna gegn Tottenham í Meistaradeildinni í kvöld að munurinn á liðunum hefði verið sá að líkamlegur styrkur og hraði hafi verið miklu meiri hjá liðsmönnum Tottenham og þá hafi Gareth Bale reynst sínu liði afar erfiður.

,,Við lentum í smá vandamálum og Tottenham var einfaldlega sterkara líkamlega og hraðinn var meiri í þeirra liði en okkar. Það gerði gæfumuninn þegar við misstum boltann og Tottenham sótti hratt á okkur,“ sagði Benítez í viðtali á Sky Italia sjónvarpsstöðinni.

Benítez viðurkenndi að Gareth Bale hafi valdið miklum usla í vörn sinna manna en Walesverjinn lagði upp tvö mörk í leiknum en kantmaðurinn skæði skoraði þrennu í fyrri leik liðanna sem Inter vann, 4:3.

,,Við hefðum átt að höndla Bale betur í stöðunni maður á móti manni. Það vantaði hjálpavörn og það kostaði okkur ósigur. Það er rétt að Bale fékk mikið pláss og gátum ekki stöðvað hann. Mér finnst samt ekki rétt að skella allri skuldinni á Maicin. Hann átti vissulega erfitt uppdráttar í varnarleiknum en sem fyrr var hann góður fyrir sóknarleik okkar,“ sagði Benítez.


Gareth Bale er að verða einn besti kantmaður heims.
Gareth Bale er að verða einn besti kantmaður heims. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert