Pulis: Eiður hefur verið óheppinn

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. www.stokecityfc.com

Tony Pulis knattspyrnustjóri Stoke City staðfestir í samtali við breska blaðið Mirror í dag að félagið sé reiðubúið að láta Eið Smára Guðjohnsen fara nú þegar félagaskiptaglugginn opnast um áramótin ef viðeigandi tilboð muni berast í leikmanninn.

Eiður hefur aðeins komið við sögu í fimm leikjum Stoke frá því hann kom til liðsins í lok ágúst. Í engum þeirra hefur hann verið í byrjunarliðinu og síðast fékk hann að spreyta sig með liðinu þann 27. október.

,,Ef það næst samningur sem þú telur að sé sá rétti fyrir félagið og leikmaðurinn telur svo líka þá verður samningur. En ef ekki þá verður enginn samningur.

Eiður hefur verið óheppinn með þeim hætti að hann hefur ekki fengið þann spilatíma sem hann hefði viljað fá. Og þar sem vont veður hefur verið hér síðustu þrjár vikurnar þá hefur hann ekki getað spilað með varaliðinu. En hann hefur æft í frítímum og lagt hart að sér en hefur bara verið óheppinn,“ segir Pulis við Mirror.

Orðrómur hefur verið í gangi að Eiður sé reiðbúinn að greiða upp samning sinn við Stoke svo hann geti yfirgefið félagið en hvorki hefur náðst í Eið né föður hans og umboðsmann, Arnór Guðjohnsen, til að fá þeirra hlið á málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert