Liverpool spilar með sorgarbönd

Kenny Dalglish og allt Liverpool-liðið hugsar til norsku þjóðarinnar.
Kenny Dalglish og allt Liverpool-liðið hugsar til norsku þjóðarinnar. Reuters

Leikmenn enska knattspyrnuliðsins Liverpool leika með sorgarbönd í dag þegar liðið leikur gegn Hull í dag. Þetta er æfingaleikur milli liðanna í undirbúningi fyrir keppnistímabilið sem hefst í næst mánuði en Liverpool leikur sem kunnugt er í úrvalsdeildinni en Hull í 1. deild.

Kenny Dalglish knattspyrnustjóri félagsins staðfesti þetta fyrir stundu á opinberri Twitter-síðu sinni. „Við munum vera með sorgarbönd í dag gegn Hull af virðingu við norsku þjóðina.“ 

Enginn Norðmaður spilar með Liverpool en tveir Danir eru á mála hjá félaginu, þeir Christian Poulsen og Martin Hansen. Liverpool hefur þó haft Norðmenn innan sinna vébanda í gegnum tíðina. Stig Inge Björnebye, Björn Tore Kvarme, Öyvind Leonardsen, Vegard Heggem og John Arne Riise spiluðu allir með Liverpool. Björnebye kom fyrstur árið 1992 en Riise yfirgaf liðið síðastur eða árið 2008 þegar hann gekk til liðs við Roma.

Liverpool á að spila æfingaleik gegn Vålerenga á Ullevaal vellinum í Osló þann 1. ágúst næstkomandi. Líklegt er að sá leikur muni fara fram þrátt fyrir skelfilega atburði gærdagsins.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert