Eigendur vilja að engin lið falli

John W. Henry hjá Liverpool er einn af níu erlendum …
John W. Henry hjá Liverpool er einn af níu erlendum eigendum í úrvalsdeildinni. Reuters

Nokkrir erlendir eigendur félaga í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu vilja að lið muni framvegis ekki falla úr deildinni, að sögn Richards Bevans, formanns félags knattspyrnustjóra í Englandi.

Bevan sagði við BBC að hann óttaðist að ef fleiri félög lenda í höndum erlendra eigenda gætu þeir orðið það fjölmennir að þeir geti knúð fram breytingar af þessu tagi.

„Nokkur þessara félaga eru komin með það í umræðu að breyta reglum þannig að lið muni ekki falla úr deildinni og ekki bætast við hana. Ef fjórir til fimm nýir eigendur bætast í hópinn, gæti þetta orðið að veruleika," sagði Bevan.

Stjórn úrvalsdeildarinnar hefur til þessa staðið fast á því að færsla á liðum á milli deilda sé ófrávíkjanleg regla og sé mikill styrkur fyrir deildina.

Níu félög af tuttugu í deildinni eru í eigu erlendra aðila, Aston Villa, Blackburn, Chelsea, Fulham, Liverpool, Manchester City, Manchester United, Sunderland og QPR, auk þess sem erlendur aðili á meirihluta í Arsenal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert