Spilar Gylfi sinn fyrsta leik í úrvalsdeildinni?

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Swansea. www.swanseacity.net

Tvö Íslendingalið verða í eldlínunni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Heiðar Helguson og félagar hans í QPR sækja Newcastle heim og Swansea, lið Gylfa Þórs Sigurðssonar, fær Arsenal í heimsókn á Liberty Stadium.

Mark Hughes stýrir QPR-liðinu í fyrsta sinn í dag í leiknum gegn Newcastle. Joey Barton tekur út leikbann í liði QPR og þeir Adel Taarabt og Armand Traore eru með landsliðum sínum í Afríkukeppninni. Newcastle leikur án tveggja öflugra leikmanna en miðjumaðurinn Cheick Tiote og sóknarmaðurinn skæði Demba Ba eru farnir í Afríkukeppnina.

Gylfi Þór gæti spilað sinn fyrsta leik í úrvalsdeildinni í dag þegar Swansea mætir Arsenal en hann kom inn á sem varamaður í bikarleik með liðinu gegn Brentford um síðustu helgi. Þá er líklegt að Thierry Henry komi eitthvað við sögu hjá Arsenal og spili þá sinn fyrsta leik í úrvalsdeildinni frá árinu 2007.

Leikir dagsins:

13.30 Newcastle - QPR
16.00 Swansea - Arsenal

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert