Vilja að fyrirliðabandið verði tekið af Terry

John Terry.
John Terry. Reuters

Þegar ljóst var í gær að réttarhöldunum yfir John Terry, fyrirliða Chelsea og enska landsliðsins í knattspyrnu, fyrir meint kynþáttarníð í garð Antons Ferdinands var frestað í gær fram yfir Evrópumótið í sumar hafa margir óskað eftir því að Terry verði ekki látinn bera fyrirliðaband enska landsliðsins fyrir málið hafi verið til lykta leitt.

Allt frá þingmönnum til knattspyrnumanna hafa skrifað um málið á twitter samskiptavefinn þar sem þess er krafist að Terry verði sviptur fyrirliðastöðunni.

,,Trúið mér. Búningsklefinn á Evrópumótinu verður eitraður nema rétt ákvörðun verði tekin,“ skrifar Jason Roberts, framherji Reading og álitsgjafi hjá BBC.

Enska knattspyrnusambandið hefur ekkert tjáð sig um málið og það þykir ólíklegt að landsliðsþjálfarinn Fabio Capello gefi út einhverja yfirlýsingu fyrr en nokkrum fyrir vináttuleikinn á móti Ungverjum á Wembley þann 29. þessa mánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert