Skrtel: Gætum okkar á Brighton

Martin Skrtel vill fara alla leið í bikarnum.
Martin Skrtel vill fara alla leið í bikarnum. Reuters

Martin Skrtel, slóvakíski miðvörðurinn hjá Liverpool, skorar á félaga sína að halda fullri einbeitingu fyrir bikarleikinn gegn Brighton á Anfield í dag en liðin mætast í 16-liða úrslitunum klukkan 16.30.

Brighton, sem er í 9. sæti B-deildar eftir að hafa komið upp úr C-deildinni síðasta vor, hefur þegar slegið út eitt af sterkari liðum úrvalsdeildarinnar, Newcastle, og Skrtel sagði í viðtali við leikskrá Liverpool fyrir leikinn að andstæðingarnir yrðu erfiðir.

„Hver leikur er öðruvísi en aðrir. Nú erum við á Anfield, þeir leika í B-deildinni en eru með fullt af góðum leikmönnum. Þegar spilað er við lið úr neðri deildum leggja þau afar hart að sér og gera mönnum erfitt fyrir. Við verðum að mæta algjörlega einbeittir til leiks því þetta er leikur sem við verðum að vinna. Bikarkeppnin gefur okkur tækifæri á að vinna titil. Við erum í 16-liða úrslitum og þetta er tækifæri til að komast í átta liða úrslit.

Við höfum allt til þess. Ég hef ekki komist lengra en þetta með liðinu í bikarkeppninni og ég vil ná lengra," sagði Skrtel og tók undir það að bikarvikan í janúar, þegar Liverpool sló út Manchester City og Manchester United út úr deildabikarnum og enska bikarnum með nokkurra daga millibili væri einhver sú besta á hans ferli.

„Já, hún er ein sú besta. Árið 2009 unnum við Real Madrid 4:0 og síðan Manchester United 4:1. Það var líka góð vika. Það var auðvitað gott að slá út bæði City og United en það er liðin tíð. Nú er komið að öðrum leikjum sem við verðum að vinna," sagði Martin Skrtel.

Tveir aðrir bikarleikir fara fram í dag. Crawley Town úr D-deildinni fær Stoke City í heimsókn klukkan 12 og Stevenage úr C-deildinni tekur á móti Tottenham klukkan 14.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert