Rodgers: Gylfi hefur gert frábæra hluti

Gylfi fagnar marki gegn Wigan um síðustu helgi.
Gylfi fagnar marki gegn Wigan um síðustu helgi. www.swanseacity.net

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Swansea, segir að Gylfi Þór Sigurðsson hafi staðið sig frábærlega með liðinu frá því hann kom til þess sem lánsmaður frá Hoffenheim í janúar.

Gylfi hefur skorað þrjú mörk í sjö deildarleikjum með liðinu og hefur hann verið besti maður liðsins í undanförnum leikjum. Swansea tekur á móti toppliði Manchester City á morgun en eina liðið sem hefur fagnað sigri á Liberty Stadium á tímabilinu er Manchester United.

„Gylfi hefur gert frábæra hluti með okkur. Mér fannst alltaf að við þyrftum að fá einhvern leikmann sem gæti búið til mörk og skorað mörg og hann hefur gert það fyrir okkur. Það er ekki spurning að það búa miklir hæfileikar í honum,“ segir Rodgers á vef Swansea.

Swansea vill reyna að semja við Gylfa til frambúðar en hann á tvö ár eftir af samningi við Hoffenheim. Það gæti þó reynst þrautin þyngri því með frammistöðu sinni er Gylfi orðinn eftirsóttur og í vikunni bárust af því fréttir að ítölsku stórliðin Inter og Juventus væru með íslenska landsliðsmanninn í sigtinu.

Sjá viðtal við Gylfa í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert