Owen: Vantaði Scholes í lið Englands

Paul Scholes í leik með Manchester United í vetur.
Paul Scholes í leik með Manchester United í vetur. AFP

Michael Owen, fyrrum landsliðsmaður Englands í knattspyrnu, segir að tvær helstu ástæðurnar fyrir því að enska landsliðið komst ekki lengra í 8-liða úrslitin á EM séu þær að liðið haldi boltanum ekki nógu vel og hafi ekki verið með Paul Scholes innanborðs.

„Pirlo var magnaður en við eigum leikmann á sama aldri sem er jafngóður og hann. Því miður var hann ekki á staðnum - Paul Scholes," skrifaði Owen á Twitter eftir tapið gegn Ítölum í gærkvöld.

Scholes, sem er 37 ára gamall, hætti að spila með enska landsliðinu fyrir átta árum en hann hafði þá leikið 66 landsleiki fyrir Englands hönd og skorað í þeim 14 mörk.

„Það er auðvelt að segja að England muni aldrei vinna neitt fyrr en liðið heldur boltanum betur. Við erum ekki eins góðir í því og önnur lið. Við lékum eins og við getum best, en það var bara ekki nóg. Við vonuðumst eftir því að vinna með Chelsea-aðferðinni. Ef maður er ekki með besta liðið leitar maður annarra leiða til að sigra. Hinn möguleikinn er að hætta að leggja allt upp úr úrslitum um skeið og byrja frá grunni með nýjum leikstíl," skrifaði Owen.

„Ég efast þó um að við eigum leikmennina til þess. Lausnin verður að vera sú að byrja að kenna táningunum okkar öðruvísi fótbolta," bætti Owen við en hann er nú án félags þar sem samningur hans við Manchester United rann út í vor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert