West Ham enn í skuldafeni vegna Tévez-málsins

Carlos Tévez skorar fyrir City þessa dagana.
Carlos Tévez skorar fyrir City þessa dagana. Reuters

David Sullivan, annar af eigendum enska knattspyrnufélagsins West Ham, segir að félagið sé enn að borga niður skuldina vegna Tévez-málsins og það hafi mikil áhrif á hvað West Ham geti eytt í leikmenn í dag.

West Ham keypti Tévez frá Corinthians sumarið 2006 en var eftir tímabilið sektað um 5,5 milljónir punda þegar upp komst að Argentínumaðurinn var í eigu þriðja aðila.

Félagið samþykkti einnig að greiða Sheffield United 26,5 milljónir punda eftir að það kærði West Ham. Leit Sheffield United svo á að lið West Ham hafi haldið sér uppi í deildinni með ólöglegum hætti.

Sullivan viðurkennir að þessi upphæð hafi enn skaðleg áhrif á félagið og vegna hennar geti West Ham ekki beitt sér að fullu á leikmannamarkaðnum.

„Það eru enn vel yfir tíu milljónir sem við skuldum vegna Tévez-málsins, þrátt fyrir að við höfum verið að greiða það niður síðustu tvö ár,“ segir Sullivan í viðtali við The Mirror.

„Sú upphæð verður greidd á næstu tólf mánuðum og það hefur mikil áhrif á hvað við getum gert á leikmannamarkaðnum,“ segir Sullivan.

West Ham fékk samt sem áður níu nýja leikmenn til félagsins fyrir átökin í úrvalsdeildinni en Sullivan hrósar Sam Allardyce, knattspyrnustjóra liðsins, fyrir þau viðskipti.

„Við gerðum vel á markaðnum og fengum virkilega góða leikmenn til okkar þrátt fyrir takmarkaða sjóði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert