Agger samdi við Liverpool

Daniel Agger.
Daniel Agger. AFP

Danski knattspyrnumaðurinn Daniel Agger skrifaði í dag undir nýjan langtímasamning við Liverpool en frá þessu er greint á vef félagsins. Ekki kemur fram hversu langur samningurinn er.

„Þetta skiptir mig öllu máli. Hér vil ég vera og ég er ánægður með að félagið skuli vilja hafa mig áfram. Ég vildi ekki fara neitt annað. Mér finnst ég vera hluti af þessu félagi og það vil ég vera um ókomin ár. Ég er ánægður með það sem er í gangi núna, með leikstílinn sem við erum að þróa, og vonandi skilar það sér í góðum úrslitum sem fyrst. Stuðningur fylgismanna félagsins hefur verið ótrúlegur - leikurinn þegar þeir sungu endalaust um mig var ógleymanlegur og þá var erfitt að halda einbeitingunni. Slíkt hafði ég aldrei áður upplifað. Hér ætla ég að vera eins lengi og stjórinn og eigendurnir vilja hafa mig," sagði Agger á vef Liverpool í dag.

Agger, sem er 27 ára gamall, kom til Liverpool frá Bröndby árið 2006 og hefur spilað 177 leiki fyrir félagið, og skorað í þeim 9 mörk. Hann á að baki 51 landsleik fyrir Danmörku og hefur skorað í þeim 6 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert