Gerrard: Fer ekki að ráðum Zlatans

Gerrard á æfingu með enska landsliðinu í Stokkhólmi.
Gerrard á æfingu með enska landsliðinu í Stokkhólmi. AFP

Steven Gerrard, leikmaður Liverpool, ætlar ekki að fara að ráðum sænska kollega síns Zlatans Ibrahimovic sem sagðist vilja sjá Gerrard spila fyrir „stórt alþjóðlegt félag“.

Gerrard hefur leikið allan sinn feril hjá Liverpool á meðan Zlatan hefur ferðast um og spilað með Ajax, Juventus, Inter, Barcelona, AC Milan og nú Paris Saint-Germain í þessari röð.

Svíinn er mikill aðdáandi Gerrards en í viðtali í aðdraganda landsleik Englands og Svíþjóðar í kvöld sagði Zlatan: „Þó Liverpool sé auðvitað stórt félag væri ég til í að sjá Gerrard spila fyrir stórt alþjóðlegt félag.“

Gerrard er þó ánægður hjá sínum uppeldisklúbbi og ætlar sér ekki að yfirgefa Anfield en hann lék á dögunum 600. leikinn fyrir Liverpool.

„Ég er mikill aðdáandi Zlatans en ég ætla ekki að taka ráðum hans. Ég er mjög ánægður hjá Liverpool og að mínu mati er ég hjá einu stærsta félagi heims. Þetta er lið sem hefur orðið Evrópumeistari fimm sinnum. Ég er ánægður þar sem ég er, en ég þakka Zlatan fyrir hans skoðun,“ segir Steven Gerrard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert