Chelsea staðfestir ráðningu Benítez

Rafa Benítez stýrði síðast Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.
Rafa Benítez stýrði síðast Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Reuters

Rafael Benítez hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Chelsea en þetta staðfesti félagið rétt í þessu. Spánverjinn skrifaði undir samning sem gildir út leiktíðina við Evrópumeistarana.

Í tilkynningu frá Chelsea segir að Benítez muni hitta leikmenn liðsins á æfingu á morgun. Þar segir einnig að með því að fá Benítez sé félagið að fá stjóra með gríðarlega reynslu sem geti strax látið til sín taka. Hann hafi tvívegis verið kjörinn knattspyrnustjóri ársins í Evrópu eftir að hafa fyrst skapað sér orðspor sem stjóri Valencia á Spáni og síðar með Liverpool.

Fyrsti leikur Chelsea undir stjórn Benítez er stórleikur við sjálfa Englandsmeistara Manchester City á sunnudaginn.

Benítez vann spænsku deildina tvívegis og UEFA-bikarinn þegar hann var stjóri Valencia. Hann vann svo Meistaradeild Evrópu og enska bikarinn á sex árum sínum með Liverpool 2004-2010, en hann stýrði svo Inter um skamma hríð seinni hluta ársins 2010.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert