Segir að Reina myndi glaður snúa aftur til Barcelona

Pepe Reina gæti hugsanlega snúið aftur til Barcelona.
Pepe Reina gæti hugsanlega snúið aftur til Barcelona. AFP

Miguel Reina, faðir Pepes Reina, markvarðar Liverpool, kveðst þess fullviss að sonur sinn yrði hæstánægður með að snúa aftur til Barcelona eins og orðrómur er  um að gerist í sumar.

Victor Valdes, sem verið hefur aðalmarkvörður Börsunga undanfarin ár, ætlar ekki að gera nýjan samning við félagið og hefur Pepe Reina verið sagður helsti kandídatinn til að taka við af honum.

„Ég er þess fullviss að Pepe yrði hæstánægður með að snúa aftur til Barcelona. Ég yrði alla vega í skýjunum. Hvaða faðir myndi ekki vilja sjá son sinn spila fyrir Barca? Ég fékk að gera það en það væri stórkostlegt að upplifa það aftur,“ sagði Miguel en Pepe sonur hans lék sína fyrstu meistaraflokksleiki með Barcelona. Miguel var svo sjálfur markvörður liðsins í sjö ár í kringum 1970, og hóf nýverið að starfa sem markvarðaþjálfari hjá félaginu.

„Pepe hefur sýnt hve góður markvörður hann er og ég held að hann myndi ráða vel við þetta hlutverk. Ég held að hann yrði án vafa fullkominn markvörður fyrir Barcelona,“ sagði Miguel ennfremur við útvarpsstöðina La Xarxa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert