Carragher leggur skóna á hilluna

Jamie Carragher.
Jamie Carragher. AFP

Jamie Carragher, varnarmaðurinn reyndi hjá enska knattspyrnuliðinu Liverpool, tilkynnti í dag að hann myndi leggja skóna á hilluna að þessu keppnistímabili loknu.

Carragher, sem er 35 ára gamall, hefur leikið með Liverpool allan sinn feril og spilað rúmlega 700 leiki með aðalliði félagsins frá árinu 1997. Aðeins Ian Callaghan er leikjahærri í sögu Liverpool.

„Ég tilkynni þetta núna vegna þess að ég vil ekki að knattspyrnustjórinn þurfi að svara spurningum um mig, fyrst ég er á annað borð búinn að taka þessa ákvörðun. Ég mun leggja mig allan fram fyrir Liverpool til loka þessa tímabils, eins og ég hef gert allan minn feril síðan ég kom til félagsins 9 ára gamall. Ég mun ekki ræða þetta frekar fyrr en tímabilinu er lokið. Öll okkar einbeiting á að beinast að því að liðið nái besta mögulega sæti í úrvalsdeildinni og reyna að vinna þann bikar sem við eigum enn mögulega á," sagði Carragher í yfirlýsingunni á vef Liverpool.

Carragher lék 38 landsleiki fyrir England og hann var í sigurliðum Liverpool í UEFA-bikarnum árið 2001 og í Meistaradeild Evrópu árið 2005. Þá hefur hann tvisvar orðið enskur bikarmeistari með liðinu og þrisvar unnið deildabikarinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert