Þrír Arsenalmenn meiddust

Theo Walcott með boltann í leik Englands og Brasilíu.
Theo Walcott með boltann í leik Englands og Brasilíu. AFP

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal hefur ekki verið sérlega hrifinn af því að sínir leikmenn spili vináttulandsleiki og ekki eykst sú hrifning í þessari viku því þrír Arsenalmenn meiddust í landsleikjatörn vikunnar.

Miðvörðurinn Laurent Koscielny lék með Frökkum gegn Þjóðverjum og þurfti að fara af velli, meiddur á kálfa. Miðjumaðurinn Aaron Ramsey tognaði á kálfa á æfingu með velska landsliðinu og varð að hætta við að spila með því gegn Austurríki í gær. Theo Walcott lék í 75 mínútur með Englandi gegn Brasilíu á Wembley, en sást haltra um eftir leikinn og óvíst er um ástand hans.

Þá fór Santi Cazorla í langt og þreytandi ferðalag með spænska liðinu til Doha í Katar þar sem það mætti Úrúgvæ þannig að æfingar Arsenal í dag verða fámennari en ella og spurning hverjir verða leikfærir þegar liðið mætir Sunderland í úrvalsdeildinni á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert