Leikurinn eyðilagður

Cüneyt Cakir rekur Nani af velli í leiknum í gærkvöld.
Cüneyt Cakir rekur Nani af velli í leiknum í gærkvöld. AFP

Þeir ríflega 76.000 áhorfendur sem borguðu morð fjár fyrir aðgöngumiða og flugu jafnvel langt að til að sjá stórleik Manchester United og Real Madrid í seinni leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í gærkvöldi voru illa sviknir eftir 56 mínútur þegar tyrkneskur dómari leiksins, Cüneyt Cakir, eyðilagði leikinn.

Cakir rak þá Portúgalann Nani af velli með rautt spjald fyrir afar litlar sakir en Nani sparkaði óviljandi í Álvaro Arbeloa, leikmann Real Madrid, án þess að hafa hugmynd um að Spánverjinn væri fyrir aftan hann.

Manchester United hafði skömmu áður komist yfir, 1:0, og var í fínni stöðu en José Mourinho, þjálfari Real Madrid, var snöggur að bregðast við. Hann setti inná Króatann Luka Modric sem þrumaði boltanum í stöngina og inn á 67. mínútu og tveimur mínútum síðar skoraði Cristiano Ronaldo á sínum gamla heimavelli eftir þunga sókn gestanna.

Á einu augabragði snerist leikurinn. Manchester United þurfti allt í einu að skora tvisvar sinnum til að komast áfram en var manni undir eftir glórulausan dóm Tyrkjans.

Sjá nánar umfjöllun um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert