Gylfi: Stórkostlegt að vera hérna

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar með félögum sínum eftir að hafa skorað gegn Inter. stækka

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar með félögum sínum eftir að hafa skorað gegn Inter. AFP

„Þetta var frábært. Við byrjuðum leikinn geysilega vel, Gareth skoraði snemma, og það gaf okkur sjálfstraust sem hjálpaði okkur mikið," sagði Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Tottenham, við vef UEFA eftir sigurinn á Inter Mílanó, 3:0, í 16-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA á White  Hart Lane í gærkvöld.

„Við vorum á höttunum á eftir fjórða markinu í seinni hálfleik en það náðist ekki, og sem betur fer héldum við hreinu," sagði Gylfi, sem skoraði sitt annað mark í þremur leikjum.

„Ég skoraði barningsmark gegn West Ham sem hjálpaði mér mikið og jók sjálfstraustið. Svo unnum við Arsenal um daginn, sem kom okkur til góða í dag. Liðið er í frábæru formi og vonandi getum við spilað til loka tímabilsins eins og við höfum gert síðustu vikurnar," sagði Gylfi, sem lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Gareth Bale og kom síðan Tottenham í 2:0 á 18. mínútu.

„Maður nýtur þess að spila með frábærum leikmönnum og Gareth hefur verið hreint ótrúlegur á þessu tímabili. Það er fjöldi góðra leikmanna í hópinum og það er stórkostlegt að vera hérna.

Við vitum að leikurinn á San Siro verður mjög erfiður. Það yrði frábært að skora á útivelli, þetta verður erfitt en við verðum klárir í slaginn," sagði Gylfi Þór Sigurðsson.

  • Til baka
  • Blogga um frétt
  • Senda