Mancini hrósar Dzeko - Kostar 3,3 milljarða

Edin Dzeko hefur reynst City vel í vetur.
Edin Dzeko hefur reynst City vel í vetur. AFP

Roberto Mancini knattspyrnustjóri Manchester City hefur viðurkennt að framherjinn Edin Dzeko gæti verið á förum frá félaginu í sumar en hann hefur meðal annars verið orðaður við Dortmund og Inter Mílanó.

Dzeko er annar af markahæstu leikmönnum City í vetur með 13 mörk en gengur ekki að sæti í byrjunarliði vísu. Þessi 26 ára Bosníumaður ku ósáttur við mikla bekkjarsetu en hann hefur nýtt tækifærin sín vel þegar hann kemur inná. Þess vegna er skiljanlegt að hann kosti skildinginn, en Mancini segir ljóst að Dzeko fari ekki fyrir minna en 20 milljónir evra, jafnvirði 3,3 milljarða króna.

„Edin er mikilvægur leikmaður fyrir okkur. Við höfum samt ekki rætt félagaskiptamálin enda eru enn 10 leikir eftir. Í júní getur allt gerst. Ef að leikmaður vill fara þá metum við stöðuna, og það á við um alla leikmenn,“ sagði Mancini við Sky Italia.

„Dzeko er frábær leikmaður að mínu mati. Hann myndi skora meira en 20 mörk á tímabili á Ítalíu. En hann kostar 20 milljónir evra, og jafnvel meira,“ sagði Mancini sem seldi annan framherja, Mario Balotelli, í janúar þegar Dzeko var orðaður við Inter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert