Martínez hættur hjá Wigan - ræðir við Everton

Martínez hefur gert góða hluti með Wigan.
Martínez hefur gert góða hluti með Wigan. AFP

Fram kom á sjónvarpstöðinni Sky Sports News rétt í þessu að Roberto Martínez, knattspyrnustjóri Wigan, ætli að yfirgefa félagið en það féll niður í B-deildina eftir sjö ára veru í úrvalsdeildinni á nýliðinni leiktíð.

Martínez tók við Wigan 2009 og hefur unnið hvert kraftaverkið á fætur öðru í fallbaráttunni með liðið en hann gerði svo það ótrúlega og vann Manchester City í úrslitum enska bikarsins á dögunum.

Hinn 39 ára gamli Spánverji hefur verið eftirsóttur undanfarin misseri en haldið tryggð við Wigan og eiganda liðsins, Dave Whelan, en nú er hann á förum ef marka má fregnir Sky Sports News.

Martínez hefur verið orðaður við Everton og Stoke en þar eru knattspyrnustjórastöður lausar eftir að David Moyes fór frá Everton til Manchester United og Tony Pulis var rekinn frá Stoke.

Dave Whelan, eigandi Stoke, segir í viðtali við PA að Martínez muni ræða við Everton. „Roberto vill fara en hann er á tólf mánaða rúllandi samningi þannig sá sem fær hann verður að kaupa upp síðasta árið hans. Everton-menn hringdu í mig og ég gaf þeim leyfi til að ræða við hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert