Suárez í mál við Liverpool?

Hefur Luis Suárez spilað sinn síðasta leik með Liverpool?
Hefur Luis Suárez spilað sinn síðasta leik með Liverpool? AFP

Úrúgvæski framherjinn Luis Suárez er að skoða möguleikana á því að leggja fram kæru til Alþjóða íþróttadómstólsins ef Liverpool stendur í vegi fyrir því að hann fari til Arsenal, samkvæmt BBC sem kveðst hafa heimildir fyrir þessu.

Liverpool hefur hafnað rúmlega 40 milljón punda tilboði frá Arsenal en talið er að klásúla í samningi Suárez við félagið heimili honum að fara, ef Liverpool komist ekki í Meistaradeild Evrópu og þessi upphæð sé boðin félaginu fyrir hann. BBC segir að forráðamenn Liverpool telji félagið samt ekki skuldbundið til að taka tilboðinu.

Suárez hefur áður leitað til dómstólsins en það gerði hann árið 2007 þegar Groningen í Hollandi hafnaði tilboði frá Ajax í hann.

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal hefur staðfest að félagið hafi áfram hug á að kaupa Suárez. „Við viljum fá hann ef mögulegt er að leysa málið á góðum nótum. Við munum virða ákvarðanir Liverpool. Ég vil ekki ræða málið frekar, ég trúi á að í svona málum verði að vera eins mikil traust á milli félaga og mögulegt er, enda þótt það sé orðið erfitt í fótboltanum í dag. En við leggjum mjög hart að okkur, ekki bara í þessu máli heldur í fleirum. Við getum enn styrkt okkar lið, við höfum mánuð til stefnu," sagði Wenger við BBC.

Suárez verður í banni í fyrstu sex leikjunum á komandi tímabili en hann á eftir að afplána meirihlutann af tíu leikja banninu sem hann fékk í apríl fyrir að bíta Branislav Ivanovic, leikmann Chelsea, í viðureign liðanna. Hann skoraði 30 mörk í 44 leikjum með Liverpool á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert