Suárez segir Liverpool svíkja loforð

Luis Suárez var einn albesti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu …
Luis Suárez var einn albesti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. AFP

Úrúgvæinn Luis Suárez segir að Liverpool hafi lofað sér því í fyrra að fá að fara í sumar tækist liðinu ekki að komast í Meistaradeild Evrópu. Hann segir félagið nú svíkja það loforð.

Daily Telegraph birti í kvöld einkaviðtal við Suárez þar sem hann kveðst reiðubúinn að leggja inn formlega beiðni um félagaskipti áður en vikan er úti. Arsenal bauð sem kunnugt er 40 milljónir og eitt pund í framherjann í sumar en því boði var hafnað.

„Í fyrra bauðst mér að fara til stórs félags í Evrópu en ég hélt kyrru fyrir gegn því að ég fengi að fara frá félaginu ef við kæmumst ekki í Meistaradeild Evrópu. Ég gerði allt sem ég gat til að koma liðinu í eitt af fjórum efstu sætunum en það dugði ekki til. Núna vil ég bara að Liverpool standi við sín orð,“ sagði Suárez.

Suárez gerði nýjan samning við Liverpool í ágúst í fyrra og í honum var sögð vera klásúla um að kappinn mætti fara bærist tilboð upp á 40 milljónir punda. Arsenal lét reyna á þá klásúlu en Liverpool segir hins vegar að félagið sé ekki skuldbundið til að selja hann fyrir þessa upphæð. Suárez er reiðubúinn að fara með málið lengra.

„Ég er með loforð félagsins og við erum með skriflegan samning og munum gjarnan fara með málið til ráðamanna í úrvalsdeildinni sem geta þá tekið afstöðu til þess, en ég vil ekki að það komi til þess,“ sagði Suárez.

„Mér finnst ég ekki vera svikinn en félagið lofaði mér ákveðnum hlutum fyrir ári síðan rétt eins og ég lofaði að halda kyrru fyrir og reyna eins og ég gæti að koma okkur í Meistaradeildina. Þeir lofuðu mér þessu og ég vil að þeir standi við loforðið. Þetta er ekki bara munnlegt samkomulag við stjórann heldur skriflegt í samningnum. Ég er ekki að fara til annars félags til að skaða Liverpool,“ sagði Suárez.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert