Carragher reiður út í Suárez: „Taktu þig taki“

Luis Suárez er ekki vinsælasti maðurinn á Anfield þessa dagana.
Luis Suárez er ekki vinsælasti maðurinn á Anfield þessa dagana. AFP

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool, er langt frá því ánægður með hegðun úrúgvæska framherjans Luis Suárez í sumar en hann þarf nú að æfa einn eftir að segja í ítarlegu viðtali við The Guardian að hann vilji fara en Liverpool standi í vegi fyrir honum.

„Ég þekki Luis vel enda spilað með honum undanfarin ár og hann er stríðsmaður. Hann er baráttuhundur á vellinum og á hverjum degi á æfingu. Hann missir aldrei af æfingu,“ segir Carragher við Sky Sports en hann verður sérfræðingur hjá sjónvarpsstöðinni um ensku úrvalsdeildina í vetur.

Carragher tók þátt í ágóðaleik Liverpool til heiðurs fyrirliðanum Steven Gerrard á dögunum en þar var 15 árum þessa magnaða miðjumanns fagnað með sigri á Roma.

„Ég fór á æfingu á föstudeginum fyrir leikinn og var ekki maðurinn sem ég eitt sinn þekkti. Ég tel það rétt hjá Brendan Rodgers að fjarlægja hann úr hópnum því enginn er stærri en félagið eða hópurinn.“

„Hann er ekki að fara spila fyrstu leikina því hann er í banni þannig Liverpool verður að einbeita sér að því að koma sér í stand fyrir fyrsta leikinn gegn Stoke. Ef Suárez er að trufla undirbúning annarra verður að taka hann úr hópnum,“ segir Carragher.

Carragher segir að ekki megi sleppa Suárez til liðs sem verði í baráttunni um eitt af fjórum efstu sætunum við Liverpool og þá myndi hann segja markahróknum til syndanna sjálfur væri hann enn í búningsklefanum með honum.

„Taktu þér taki. Þú færð ekki það sem þú vilt og getur ekki sætt þig við það,“ myndi Carragher segja við Suárez.

„Það eru aðrar leiðir sem hægt er að fara í svona málum. Leikmenn skipta um lið endalaust en þú færð ekki alltaf það sem þú vilt ... Það vill enginn óánægða leikmenn á æfingum. Það hefur áhrif á aðra leikmenn.“

„Að því sögðu er þetta erfið staða fyrir Liverpool, rétt eins og fyrir Manchester United með Wayne Rooney. Það er stórmál að hleypa leikmanni í lið sem er beinn keppinautur,“ segir Jamie Carragher.

Jamie Carragher var tryggur Liverpool í fjölda ára.
Jamie Carragher var tryggur Liverpool í fjölda ára. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert