Freddy Adu fær ekki samning hjá Blackpool

Freddy Adu fékk ekki samning í ensku B-deildinni.
Freddy Adu fékk ekki samning í ensku B-deildinni. Ljósmynd/Bahia

Hinn bandaríski Freddy Adu sem eitt sinn var talinn eitt mesta efni sem fram hafði komið í knattspyrnuheiminum, náði ekki að heilla forráðamenn enska B-deildarliðsins Blackpool eftir að hafa verið þar til reynslu á dögunum.

Hinn 24 ára gamli Adu er að leita sér að nýju félagi eftir að hafa yfirgefið Philadelphia Union og æfði í þrjár vikur undir stjórn Barry Ferguson hjá Blackpool. Hann lék meðal annars tvo æfingaleiki með liðinu en mun ekki fá samningstilboð á þessari stundu.

„Hann lagði hart að sér hjá okkur og er frábær strákur en ég er meira en ánægður með liðið eins og það er,“ sagði Ferguson. Adu mun hins vegar áfram æfa með liðinu og því aldrei að vita hvort hann vinni sér inn samning á endanum.

Frægðarsól barnastjörnunnar hefur farið hratt niður á við síðan hann kom fram á sjónarsviðið fjórtán ára gamall. Hann gekk til liðs Benfica í Portúgal árið 2007 en náði ekki að heilla menn þar á bæ. Hann var lánaður til fjölda liða, meðal annars í tyrknesku 2. deildina, auk þess sem hann spilaði í Brasilíu um tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert