Búa sig undir markaveislu á Anfield í kvöld

Luis Suárez skoraði þrennu um síðustu helgi.
Luis Suárez skoraði þrennu um síðustu helgi. AFP

Með sigri gegn Sunderland á heimavelli í kvöld fer Liverpool upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar og verður þá aðeins einu stigi á eftir toppliði Chelsea.

Margir stuðningsmenn Liverpool eru farnir að búa sig undir markaveislu á Anfield í kvöld enda hefur Sunderland-liðinu gengið illa síðustu vikurnar á meðan Liverpoool hefur verið á gríðarlegri siglingu þar sem liðið hefur raðað inn mörkunum.

Liverpool hefur unnið sex leiki í röð og hefur skorað þrjú mörk eða meira í þessum leikjum en um síðustu helgi skellti Liverpool liði Cardiff, 6:3.

Liverpool hefur aldrei tapað fyrir Sunderland á heimavelli í úrvalsdeildinni en síðasti sigurleikur Sunderland á Anfield leit dagsins ljós árið 1983.

Liverpool er eina taplausa liðið í deildinni á árinu og óhætt er að segja að liðsmenn rauða hersins hafi verið á skotskónum en Liverpool hefur skorað 82 mörk eða flest mörk allra liða á tímabilinu. Liverpool hefur aldrei áður náð að skora svona mörg mörk á einu tímabili frá stofnun úrvalsdeildarinnar.

Fastlega má reikna með því að Luis Súarez og Daniel Sturridge verði á skotskónum í kvöld en þeir hafa verið iðnir við kolann. Suárez er markahæstur í deildinni með 28 mörk og Sturridge hefur skorað 19.

Leikir kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni:

19.45 Liverpool - Sunderland
20.00 West Ham - Hull

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert