United-strákar kaupa lið í áttundu deild

Gary Neville og Paul Scholes á æfingu með Manchester United.
Gary Neville og Paul Scholes á æfingu með Manchester United. AFP

Fimm leikmenn úr hinum svokallaða 92-árgangi hjá Manchester United, Ryan Giggs, Neville-bræðurnir Gary og Phil, Nicky Butt og Paul Scholes, hafa í sameiningu keypt utandeildaliðið Salford City, sem spilar í áttundu efstu deild á Englandi.

„Við viljum nýta reynslu okkar og þekkingu úr fótboltanum til að ala upp efnilega knattspyrnumenn,“ sagði Giggs við BBC en hann er enn leikmaður Manchester United, fertugur að aldri.

„Salford City minnir á upphafsárin í fótboltanum, ákveðni, hungur, áhugi, þrá og hinn sanni fótboltaandi, og ég er afar spenntur fyrir þessu verkefni. Það er rétt að taka fram að nafninu verður ekki breytt, ekki flutt á nýjan völl og þjálfarar og stjórn halda áfram,“ sagði Gary Neville á Twitter.

„Við vitum að þetta verður erfitt en við erum afar innstilltir á þetta verkefni og erum með mjög spennandi áætlanir,“ sagði Paul Scholes sem er fæddur í Salford en það er 35 þúsund manna bær í útjaðri Manchester.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert