Cardiff krefst ógildingar úrslita - Aron nefndur í lekamálinu

Ole Gunnar Solskjær er knattspyrnustjóri Cardiff.
Ole Gunnar Solskjær er knattspyrnustjóri Cardiff. AFP

Cardiff City hefur sent stjórn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu bréf þar sem þess er krafist að úrslitin úr leik liðsins gegn Crystal Palace þann 5. apríl verði ógilt. Palace vann leikinn á heimavelli Cardiff, 3:0.

Aron Einar Gunnarsson, leikmaður Cardiff og landsliðsfyrirliði Íslands, kemur þar við sögu, en hann er tilgreindur sem heimildarmaður í  sms-skilaboðum sem sögð eru hafa farið á milli um hvernig byrjunarlið Cardiff ætti að vera skipað.

BBC skýrir frá þessu í dag og íþróttaritstjóri BBC, David Bond, kveðst hafa séð bréfið.

Cardiff kveðst hafa sannanir fyrir því að Iain Moody, íþróttastjóri Palace, hafi reynt að fá upplýsingar um byrjunarlið Cardiff fyrirfram, og honum hafi tekist það. Með því hafi hann brotið reglur deildarinnar.

Stjórn úrvalsdeildarinnar hefur staðfest að hafa fengið formlega kvörtun frá Cardiff og verið sé að kanna hvort ástæða sé til að fara lengra með málið.

Forráðamenn Cardiff segja að atburðarásin í aðdraganda leiksins varpi upp spurningum um athafnir starfsfólks félaganna og heiðarleika.

Moody er sagður hafa neitað ásökunum Cardiff en hann er fyrrverandi starfsmaður félagsins því hann stjórnaði áður uppbyggingarstarfi yngri leikmanna félagsins.  Cardiff fullyrðir hinsvegar að hann hafi haft samband við fyrrverandi samstarfsmann sinn, Enda Barron, tveimur dögum fyrir leikinn og beðið hann um aðstoð við að fá upplýsingar um byrjunarlið Cardiff í leiknum.

Þá segir Cardiff að Moody hafi komist yfir byrjunarliðið daginn fyrir leik og það hafi komið fram í samtali milli hans og Barrons þar sem sá fyrrnefndi hafi sagst vera búinn að fá uppstillingu liðsins í hendurnar. Moody hafi sagt við Barron að hann hefði þurft að leita annað því Tony Pulis knattspyrnustjóri Palace hafi lagt hart að sér að útvega sér byrjunarliðið.

Cardiff heldur því fram að síðan hafi Moody óvart sent byrjunarliðið með sms-skilaboðum til Dougie Freedmans, knattspyrnustjóra  Bolton, daginn fyrir leik. Freedman hafi síðan látið Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra Cardiff, vita af þessu vegna þess að þeir séu vinir og hafi setið þjálfaranámskeið saman.

Cardiff telur útskýringar Arons góðar og gildar

Aron Einar Gunnarsson er nefndur til sögunnar sem heimildarmaður Moodys. BBC segir að hann hafi neitað þessu alfarið, og sama sé að segja um umboðsmann hans, Jerry de Koning.

BBC segir að Cardiff hafi tekið útskýringar Arons góðar og gildar og viti ekki hver það sé sem hafi lekið upplýsingunum til Moodys. Félagið vill nú að stjórn úrvalsdeildarinnar rannsaki hver gæti hafa lekið þeim.

Samkvæmt heimildum BBC eru sms-skilaboðin sem Moody sendi á þennan veg: "Straight from Gunnarsson their line up is 4-4-2 Marshall, KTC, Caulker, Turner, Taylor, Daehli, Medel, Mutch, Zaha, Campbell, Jones".

Það kom síðan á daginn að þetta var hárrétt byrjunarlið Cardiff í leiknum en Solskjær hafði gert þrjár breytingar á því frá síðasta leik sem var gegn WBA.

Cardiff segir ennfremur að á fundi í síðustu viku hafi Solskjær skýrt frá samtali sínu við Tony Pulis að leiknum loknum. Þar er sagt að Solskjær hafi sagt við Pulis: „Ég er stórhneykslaður yfir því að yfirmaður unglingamála hjá þér skuli hafa sent einum minna leikmanna sms-skilaboð til að komast yfir byrjunarliðið."

Samkvæmt Solskjær svaraði Pulis: „Aah, ég veit. Ég bað hann ekki um þetta.“

Cardiff segir að þetta sýni svo ekki verði um villst að Pulis hafi vitað byrjunarliðið löngu áður en það var formlega birt, klukkutíma fyrir leik.

Krefjast þess að úrslitin í leiknum standi ekki

Cardiff segir að þetta sé skýlaust brot á siðareglum úrvalsdeildarinnar þar sem félögin séu skylduð til að sýna hvert öðru algjöran heiðarleika. Palace hafi af ásettu ráði brotið reglur úrvalsdeildarinnar og enska knattspyrnusambandsins og sett þrýsting á starfsfólk Cardiff um að rjúfa trúnað og brjóta samning með því að hjálpa Palace, í þeim tilgangi að ná undirtökum inni á vellinum.

Cardiff krefst þess að úrslitin í leiknum standi ekki og hvetur stjórn úrvalsdeildarinnar til þess að taka fljótt á málinu vegna þess hve miklu máli stigin skipti í fallbaráttu deildarinnar sem verði til lykta leidd á næstu vikum.

BBC segir að ekki hafi fengist nein viðbrögð frá Iain Moody og Crystal Palace vegna málsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Aron Einar Gunnarsson neitar alfarið að hafa komið að lekanum.
Aron Einar Gunnarsson neitar alfarið að hafa komið að lekanum. AFP
Tony Pulis segist ekki hafa beðið Iain Moody um að …
Tony Pulis segist ekki hafa beðið Iain Moody um að útvega sér byrjunarlið Cardiff. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert